Stjórnartillaga um aðildarumsókn að Evrópusambandinu var lögð fyrir Alþingi í gær. Tillagan er nánast samhljóða drögum sem utanríkisráðuneytið kynnti um miðjan maí.
Samkvæmt tillögunni verður ríkisstjórninni falið að sækja um aðild að Evrópusambandinu, ESB. Að loknum viðræðum við sambandið verður haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning.
„Við munum ekki veita þeim þetta opna umboð að óbreyttu. Mér finnst að það hafi verið kastað til höndunum,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, og bætir því við að þingmenn flokksins muni tjá sig frekar um tillöguna í þingumræðum.
Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar og þingmaður Vinstri grænna, segir að væntanlega muni þingmenn flokksins greiða atkvæði með mismunandi hætti. „Það eru skiptar skoðanir um málið hjá okkur.“
Árni telur að þingmenn Vinstri grænna muni ekki reyna að tefja málið. „Við munum hins vegar tryggja vandaða umfjöllun og málsmeðferð í þinginu.“
Í tillögudrögunum segir að stjórnvöld áskilji sér rétt til að mæla með eða leggjast gegn samningnum þegar hann liggur fyrir enda séu settir margvíslegir fyrirvarar við hugsanlegan stuðning við málið. Í sjálfri tillögunni, sem lögð var fram á Alþingi í gær, hefur orðinu stjórnvöld í framangreindri setningu verið breytt í málsaðilar. „Stjórnvöld eru í mínum huga framkvæmdavaldið. Það koma fleiri að málinu og orðið málsaðilar er almennara. Það nær væntanlega til allra stjórnmálaflokkanna og hugsanlega samtaka hagsmunaaðila,“ segir Árni Þór.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir tillöguna enn ekki hafa verið rædda í þingflokknum.
„Ég get þó sagt að ég hefði átt von á að sjá meiri breytingar. Þarna er bara verið að fela ríkisstjórn umboð til aðildarviðræðna og þá væntanlega bara helmingi ríkisstjórnarinnar, það er Samfylkingunni, því að Vinstri græn hafa lýst því yfir að þau séu ekki hlynnt aðildarviðræðum á þessum tímapunkti,“ segir Sigmundur Davíð.