Niðurlægjandi fyrir þingið

Guðlaugur Þór Þórðarson á Alþingi.
Guðlaugur Þór Þórðarson á Alþingi.

Mikil umræða spannst um störf þingsins á Alþingi í dag. Var þar helst deilt um það hvort stjórnarandstöðuþingmönnum í viðskiptanefnd væri neitað um fundi í nefndinni. Hóf Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, umræðuna og lýsti því hvernig þingmenn þyrftu dag eftir dag að lesa um mikilvæg atriði í fjölmiðlum, en væru ekki upplýstir um þau innan þingsins.

Sagði hann fyrir lifandi löngu kominn tími á að fundað yrði í viðskiptanefnd, svo sem um ummæli Mats Josefssons um að endurreisn bankakerfisins muni kosta 85% af vergri landsframleiðslu. Haft er eftir Josefsson að Íslendingar geri sér ekki grein fyrir því hversu mikill kostnaðurinn verði.

Birkir Jón Jónsson og fleiri þingmenn tóku undir með Guðlaugi og sagði Birkir Jón það niðurlægjandi fyrir þingmenn og þingið að koma síendurtekið að orðnum hlut í umræðunni um efnahagsmál. Tryggvi Þór Herbertsson sagði að sér hefði brugðið í brún við ummæli Josefssons, sem þýddu að kostnaðurinn við endurreisn banka væri ekki 385 milljarðar króna, heldur 1.250 milljarðar.

Álfheiður Ingadóttir svaraði því til að upplýsingar Josefssons væru ekki nýjar heldur ætti hann líkast til við brúttó skuldaaukningu ríkissjóðs vegna bankahrunsins, en þegar væri komið fram að útlagður kostnaður vegna endurreisnarinnar væri um það bil 50-60% af landsframleiðslunni. Heildarkostnaðurinn myndi lækka þegar eignir banka yrðu seldar.

Útskýrði hún fundarfallið í viðskiptanefnd í síðustu viku með því að engin mál hefðu legið fyrir nefndinni og ekki hefði tekist að boða þá viðmælendur til fundar síðasta miðvikudagsnefndar, sem stefnt var á að ræða við. Hún sór og sárt við lagði að fundur yrði haldinn í nefndinni í vikunni.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður efnahags- og skattanefndar þingsins kom í pontu í lok umræðunnar og lýsti furðu sinni á umræðunni. Sagði hann að efnahags- og skattanefnd hefði boðað Josefsson á fund sinn fyrir helgi og rætt við hann í fimm klukkustundir. Þeir fulltrúar í nefndinni sem vildu mæta á fundinn, og mættu á fundinn, hafi þar getað spurt hann spjörunum úr.

Þingmenn lýstu þá furðu sinni utan úr sal á því að fulltrúum úr viðskiptanefnd hefði ekki verið boðið á fundinn eða upplýstir um það sem þar fór fram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka