Ráðuneyti skipta um nöfn og hlutverk

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, oddvitar ríkisstjórnarflokkanna.
Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, oddvitar ríkisstjórnarflokkanna. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Helstu breyt­ing­ar sem gerðar verða á skipu­lagi inn­an stjórn­ar­ráðsins eru þær, að stjórn efna­hags­mála verður færð frá for­sæt­is­ráðuneyti og fjár­málaráðuneyti til nýs efna­hags- og viðskiptaráðuneyt­is. Þetta kom fram á blaðamanna­fundi for­sæt­is­ráðherra, fjár­málaráðherra og viðskiptaráðherra með blaðamönn­um fyr­ir há­degið í dag.

Efna­hags­skrif­stofa for­sæt­is­ráðuneyt­is­ins, Hag­stof­an og Seðlabanki Íslands flytj­ast yfir á svið hins nýja ráðuneyt­is 1. sept­em­ber næst­kom­andi í fyrsta áfanga og um næstu ára­mót. Frá fjár­málaráðuneyt­inu fara þangað gerð þjóðhags­áætl­ana og þjóðhags­spár frá efna­hags­skrif­stofu. Eign­ar­hald rík­is­ins í op­in­ber­um hluta­fé­lög­um verður fært til hins nýja ráðuneyt­is sömu­leiðis.

Frum­varp for­sæt­is­ráðherra um þetta hef­ur nú verið samþykkt í rík­is­stjórn og verður nú sent þing­flokk­um stjórn­ar­flokk­anna til meðferðar. Frum­varpið verður svo­kallaður ,,bandorm­ur".

Önnur aðal­atriði í frum­varp­inu eru þau að mennta­málaráðuneytið mun eft­ir­leiðis heita mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneyti. Þá verða ýms­ar menn­ing­ar­mála­stofn­an­ir flutt­ar frá for­sæt­is­ráðuneyt­inu þangað, svo sem Gljúfra­steinn og Þjóðmenn­ing­ar­húsið, Vest­urfara­set­ur og Græn­lands­sjóður.

Dóms- og kirkju­málaráðuneytið mun eft­ir­leiðis heita dóms- og mann­rétt­inda­málaráðuneyti og sam­göngu­málaráðuneytið mun eft­ir­leiðis heita sam­göngu og sveit­ar­stjórn­ar­málaráðuneyti. Þessi tvö ráðuneyti eiga svo að flytj­ast í eitt ráðuneyti í lok kjör­tíma­bils­ins, inn­an­rík­is­ráðuneyti.

Þá verður Norður­landa­skrif­stofa flutt úr for­sæt­is­ráðuneyt­inu í ut­an­rík­is­ráðuneytið.

Neyt­enda­mál munu flytj­ast frá viðskiptaráðuneyt­inu til hins nýja dóms- og mann­rétt­inda­málaráðuneyt­is, svo sem ýmis verk­efni Neyt­enda­stofu.

Eign­ar­hald rík­is­ins í op­in­ber­um hluta­fé­lög­um verður fært frá fé­lags- og trygg­inga­málaráðuneyt­inu til fjár­málaráðuneyt­is­ins. Sem dæmi um slík fé­lög má nefna Ísland­s­póst, lands­kerfi bóka­safna, þró­un­ar­fé­lag Kefla­vík­ur­flug­vall­ar og Rík­is­út­varpið. Fleiri atriði koma fram í frum­varp­inu að sögn ráðherra.

Sagði Jó­hanna Sig­urðardótt­ir við blaðamenn að þess­ar breyt­ing­ar myndu gera ráðuneyt­in mun skil­virk­ari og að viðkom­andi verk­efni myndu eiga mun bet­ur heima á hinum nýju stöðum í stjórn­kerf­inu.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert