Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar nú tveggja karlmanna, sem brutust inn í einbýlishús við Barðaströnd á Seltjarnarnesi í gærkvöldi og réðust á húsráðandann, karlmann á áttræðisaldri þegar hann kom heim skömmu síðar. Árásarmennirnir bundu manninn á höndum og fótum og fóru síðan ránshendi um húsið.
Mennirnir eru taldir hafa farið inn um glugga á húsinu og voru þar inni þegar húsráðandinn kom heim um klukkan 19:50 í gærkvöldi. Þegar maðurinn hafði tekið öryggiskerfið
af heyrði hann umgang á efri hæð hússins. Þegar hann fór að athuga
hverju það sætti mætti hann manni sem sló hann umsvifalaust í andlitið.
Húsráðandinn féll við og var í kjölfarið bundinn
á fótum og á höndum með límbandi. Skömmu síðar birtist annar maður í íbúðinni.
Húsráðandinn mun hafa fengið áverka á andlit í átökum við árásarmennina, sem skildu hann eftir bundinn í húsinu. Honum tókst að losa sig eftir nokkurn tíma, eða um 20 mínútur og hafði þá samband við lögreglu. Maðurinn var í kjölfarið fluttur á slysadeild.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni eru árásarmennirnir taldir vera um
tvítugt og íslenskir að þjóðerni. Húsráðandinn sá annan manninn
ógreinilega en lýsti hinum þannig, að hann væri um það bil 178
sentimetrar á hæð, grannvaxinn með brún augu og sólbrúnn á hörund. Hann
var klæddur í ljósan jakka, hefðbundnar gallabuxur og svarta strigaskó.
Þá var hann með svartan eða bláan bakpoka úr grófu strigaefni. Maðurinn
var með hettu eða húfu á höfði og drapplitaðan klút fyrir andlitinu.
Húsráðandinn taldi sig heyra það til mannanna, að annar þeirra væri kallaður Marri eða eitthvað álíka.
Úrsmíðaverkstæði er í húsinu og höfðu ræningjarnir á brott með sér um 60 armbandsúr, þar af tvö ný. Þá tóku þeir u.þ.b. 70- 90 armbandskeðjur og 4 karlmannsgullhringi.
Lögreglan biður þá, sem kynnu að geta veitt upplýsingar um manninn, sem lýst var, eða um óeðlilegar mannaferðir á svæðinu um klukkan 20 í gærkvöldi, að láta vita í síma 444-1000.