Síldarfrysting hafin á Vopnafirði

Faxi RE9
Faxi RE9 Af vef HB Granda

Fyrsta síldin úr norsk-íslenska síldarstofninum á þessari vertíð barst til Vopnafjarðar nú í morgun er áhöfnin á Faxa RE kom þangað með rúmlega 400 tonna afla.

Löndun hófst þegar í stað eftir að skipið lagðist að bryggju um tíuleytið og fór síldin til vinnslu í fiskiðjuveri HB Granda þar sem hún er flökuð og fryst.

Á vef HB Granda er haft eftir Alberti Sveinssyni skipstjóra á Faxa að síldin hafi fengist í tveimur holum djúpt norðaustur af Langanesi.

„Við vorum með um 200 tonna hol á sunnudagskvöldinu en síðan dreifði síldin sér og mest allur gærdagurinn fór í að leita að síld í veiðanlegu magni. Við fengum svo annað álíka stórt hol seinni partinn í gær,” segir Albert.

Magnús Róbertsson, vinnslustjóri HB Granda á Vopnafirði, var ánægður með síldaraflann sem byrjað var að vinna nú í hádeginu og þá ekki síst það að síldin skyldi henta í frystingu. „Síldin er reyndar frekar horuð eins og hún er jafnan á þessum árstíma. Hún hentar samt til vinnslu fyrir manneldi og það er fyrir mestu,” segir Magnús.

Lundey NS er einnig á síldveiðum og fékk skipið um 200 tonna afla í gærkvöldi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert