Veðhæfi húsnæðis haldið uppi

Guðrún Jónsdóttir, deildarstjóri vísitöludeildar Hagstofu Íslands, segir ástæðu þess að hækkun mælist á fasteignaverði nú sé annars vegar hækkun á verði annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu og síðan taki Hagstofan tillit til makaskipta. Veðhæfi húsnæðis virðist vera haldið uppi.

Guðrún segir mælingar á fasteignaverði geta sveiflast mikið milli mánaða í því árferði sem nú ríkir. Umsvifin séu lítil, miðað við það sem áður var, og þá hafi verð á landsbyggðinni oft sveiflast mikið í einstökum viðskiptum.

Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,13 prósent frá því í síðasta mánuði og þar af mældist um eins prósent hækkun á húsnæðisverði.

„Það mældist hækkun hjá okkur á fasteignaverðinu, ólíkt því sem kom fram hjá Fasteignaskrá Íslands. Það er svolítið tilviljunarkennt verðið á landsbyggðinni, þar sem það eru lítil viðskipti að baki, en þar mældist hækkun. Makaskiptin eru stór hluti samninga með sérbýli og því teljum við að það sé betra að taka þá með. Makaskiptin eru í flestum tilfellum forsenda fyrir því að viðskiptin geta átt sér stað. Ég lít ekki svo á að það sé viðsnúningur í þróun fasteignaverðs, þrátt fyrir niðurstöðuna úr mælingunni, heldur sé þetta tilviljun frekar en nokkuð annað. Við höfum einnig séð að makaskiptasamningarnir eru frekar til þess fallnir að halda uppi verði þar sem menn leitast við að halda uppi veðhæfi eignarinnar. Við höfum hins vegar tekið tillit til þess í okkar útreikningum með núvirðingu þessara samninga,“ segir Guðrún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert