Enginn bað um orðið þegar ræða átti störf þingsins í upphafi þingfundar á Alþingi í dag.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokks, vildi hins vegar ræða um fundarstjórn forseta og sagðist sakna utandagskrárumræðu um hag heimilanna, sem til stóð að færi fram á Alþingi í dag. Aðeins eru fyrirspurnir frá þingmönnum á dagskrá í dag.
Undir þetta tóku þingmenn Sjálfstæðisflokks. Illugi Gunnarsson sagði menn hafa skilning á því, að forsætisráðherra sé upptekinn við mikilvæg verkefni en nauðsynlegt væri að skýringar væru gefnar á því hvers vegna hætt væri við umræður á borð við þessa.