Fáir treysta fjármálakerfinu

Fjármálaeftirlitið
Fjármálaeftirlitið mbl.is/Eyþór

Einungis 6% bera traust til Fjármálaeftirlitsins og bankakerfisins samkvæmt nýrri könnun MMR. Hins vegar nýtur Háskóli Íslands og lögreglan trausts um 77% aðspurðra. 70,1% bera lítið traust til Fjármálaeftirlitsins og 71,6% bera lítið traust til bankakerfisins.

Sjö af hverjum tíu segjast bera mikið traust til Fréttastofu RÚV og Háskólinn í Reykjavík nýtur trausts 65% svarenda. 30,9% bera mikið traust til stéttarfélaganna í landinu.

Að sögn MMR fækkar nokkuð í hópi þeirra sem sögðust bera lítið traust til Fjármálaeftirlitsins og bankakerfisins frá könnun fyrirtækisins í desember. Þá sögðust 80,2% bera lítið traust til Fjármálaeftirlitsins samanborið við 70,1% nú og 80,1% sögðust bera lítið traust til bankakerfisins samanborið við 71,6% nú.

Ríkisstjórnin og Seðlabankinn njóta meira trausts nú

Það fækkar sömuleiðis í hópi þeirra sem bera lítið traust til ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans. Þannig sögðust 61,4% bera lítið traust til ríkisstjórnarinnar í desember samanborið við 49,7% nú og 74,1% sögðust bera lítið traust til Seðlabankans í desember samanborið við 49,4% nú, sem er fækkun um 25 prósentustig. Að sama skapi fjölgar þeim um rúman helming sem segjast bera mikið traust til Seðlabankans (fer úr 9,8% í desember í 15,5% nú).

Lífeyrissjóðirnir rúnir trausti

Samkvæmt könnuninni hefur traust til lífeyrissjóðanna dalað mikið. Þannig helmingaðist fjöldi þeirra sem sögðust bera mikið traust til lífeyrisjóðanna milli kannana (fór úr 30,5% í desember í 14,9% nú) á sama tíma og fjöldi þeirra sem sögðust bera lítið traust til lífeyrisjóðanna jókst úr 32,7% í 51,4%.

Um síma- og netkönnun var að ræða og tóku 845 einstaklingar þátt í henni 7.-14. maí 2009.

Sjá nánar um könnunina

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert