Forysta Spalar, sem rekur Hvalfjarðargöngin, átti í síðustu viku fund með fulltrúum þriggja lífeyrissjóða og framkvæmdastjóra Sambands lífeyrissjóða til að ræða tvöföldun ganganna. Gísli Gíslason, formaður stjórnar Spalar, segir fundinn hafa verið jákvæðan og er verið að undirbúa bréf sem sent verður samgönguráðherra í næstu viku.
„Hugmyndafræðin er sú að ef lífeyrissjóðirnir eru tilbúnir að koma að þessu myndu þeir fjármagna verkefnið að fullu,“ segir Gísli. „Endurgreiðslur ríkisins kæmu þá á seinni stigum þegar betur árar. Með því að opna á viðræður viljum við hreyfa við málinu svo að það komist á framkvæmdastig. Það var ekkert ákveðið af hálfu lífeyrissjóðanna, en fulltrúar þeirra sögðust tilbúnir að ræða málið áfram.
Ef svo fer að ríkið er tilbúið að skoða verkefnið þá geta komið upp fleiri sjónarmið um hvernig staðið verður að þessu. Bréfið fer til stjórnvalda í næstu viku og vonandi fáum við jákvæð svör þaðan,“ segir Gísli.
Auk nýrra jarðganga kynntu Spalarmenn áform um tvöföldun vegar úr Kollafirði að Grundarhverfi á Kjalarnesi og breikkun vegarins þaðan að gangamunnum. Á síðasta ári var áætlað að ný göng kostuðu 7-8 milljarða, en vegarlagningin 4-5 milljarða. Samtals gæti framkvæmdin því kostað 12-13 milljarða.