Fredrik Reinfeld, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir við danska fjölmiðla í dag að hann muni taka vel á móti umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu berist hún á næstu mánuðum. Svíar taka við formennsku í ESB 1. júlí.
„Komi umsókn þarf ég að ræða við nokkur af aðildarríkjunum áður en ég eða Evrópusambandið geta gengið til viðræðna um umsóknina," hefur Jyske-Vestkysten eftir Reinfeld.
„Ég fagna því ef fleiri lönd ákveða að sækja um aðild, ekki síst nágrannalönd okkar," segir Reinfeld. Hann segist þó vita, að nokkur stór aðildarríki vilji bíða með frekari stækkun Evrópusambandsins þar til búið er að staðfesta svonefndan Lissabonsáttmála, sem gerir ráð fyrir breytingum á stjórnkerfi sambandsins.
Reinfeld bendir jafnframt á, að Ísland sé þegar aðili að EES-svæðinu og hafi því tekið upp stóran hluta af löggjöf Evrópusambandsins. Það þýði, að aðildarviðræður við Íslendinga muni ganga hraðar en við önnur lönd.