Neyðarkall barst úr bankanum

27 mínútur liðu frá því hringt var á lögreglu og …
27 mínútur liðu frá því hringt var á lögreglu og þar til lögreglumenn komu að húsinu við Barðaströnd þar sem ráðist var á húsráðanda á mánudag. Kristinn Ingvarsson

Hljóðrit af fjarskiptum fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra sýna að lögreglumönnum, sem voru á leið í útkall vegna innbrotsins á Barðaströnd, var beint að Kaupþingi í Austurstræti vegna neyðarástands þar, að sögn Geirs Jóns Þórissonar, yfirlögregluþjóns hjá Lögreglu höfuðborgarsvæðisins (LRH).

Geir Jón staðfesti það að LRH hafi unnið að þremur forgangsverkefnum á sömu stundu og útkall barst vegna ránsins og líkamsárásarinnar á Barðaströnd kl. 20.35 á mánudagskvöld. Eitt þeirra var útkallið í Kaupþing bankann í Austurstræti, en það barst kl. 20.22. Geir Jón gat ekki upplýst annað um hin útköllin tvö en að lögreglumennirnir sem sinntu þeim hafi verið klárlega uppteknir. 

Geir Jón hlustaði nú síðdegis á upptökur fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra af fjarskiptunum sem fram fóru vegna útkallsins á Barðaströnd. Hann sagði ljóst af þeim að tvö mótorhjól sem voru á Hringbraut hafi verið send á Barðaströnd í beinu framhaldi af því að fyrsta hjálparbeiðni vegna innbrotsins barst.

Þegar þau voru á leið þangað barst neyðarkall frá lögreglumanni sem brugðist hafði við útkalli í Kaupþing banka Austurstræti. Lögreglumaðurinn sem kom fyrstur á staðinn taldi að maðurinn sem braust þar inn væri að skjóta á sig úr loftbyssu.

Mótorhjólalögreglurnar sem voru á leið á Barðaströnd gáfu sig strax fram við neyðarkallið, enda nálægt Austurstræti, og þar var klárlega neyðarástand. Fjarskiptamiðstöðin samþykkti þá að beina mótorhjólunum frekar í bankann en á Barðaströnd því þar væri þörfin brýnni.  Síðar kom í ljós að líklega var það eitthvað sem innbrotsþjófurinn grýtti að lögreglumanninum í bankanum en ekki loftbyssuskot sem hann varð fyrir.

Geir Jón sagði að upphafstilkynningin á Barðaströnd hafi komið frá þriðja aðila og fyrstu upplýsingar um eðli málsins hafi ekki verið mjög skýrar. Hann sagði að þeim sem tilkynnti það hafi verið sagt að tæki væru á leið á staðinn, en ekki að þeim hafi verið beint annað vegna neyðarkallsins.

Hann benti einnig á á Barðaströnd hafi allt verið yfirstaðið, maður verið kominn á staðinn, ræningjarnir farnir og ekki talið að neinn væri þar í hættu. Málið í Austurstræti hafi haft forgang og liðið hafi smástund meðan verið var að ná manninum þar. Eftir það hafi mótorhjólin farið á Barðaströnd.

Geir Jón sagði að upplýsingar um hvað þar gerðist á Barðaströnd hafi verið afar litlar. Lýsingin sem barst var sú að húsráðandinn hafi verið keflaður og sleginn en hafi náð að losa sig. Þá var maður kominn til hans.

Samkvæmt varðskrá almennu deildar LRH voru átta lögreglubílar og fjögur mótorhjól, alls 12 ökutæki á götum höfuðborgarsvæðisins og 17 lögreglumenn á þeim eftir kl. 20.00 á mánudagskvöld. Auk þess voru þrjú tæki frá umferðardeild með þremur mönnum staðsett í miðborginni. 

Geir Jón sagði að þetta kvöld hafi m.a. verið lögreglubílar í Kópavogi, við Gullinbrú, í Norðlingaholti og Garðabæ. Þau tæki sem send voru á Barðaströnd og í Austurstræti hafi verið skráð í miðborginni og sem næst henni. 

Geir Jón kvaðst vilja biðjast innilegrar velvirðingar á því að ekki skyldi hafa verið hægt að bregðast fyrr við útkallinu á Barðaströnd. „Það er alveg ljóst að þarna átti sér stað alvarlegur atburður. Sem betur fer upplýstist hann mjög fljótt af afskaplega færum rannsóknarlögreglumönnum hjá embættinu,“ sagði Geir Jón. 

Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn
Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn Friðrik Tryggvason
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert