Neyðarkall barst úr bankanum

27 mínútur liðu frá því hringt var á lögreglu og …
27 mínútur liðu frá því hringt var á lögreglu og þar til lögreglumenn komu að húsinu við Barðaströnd þar sem ráðist var á húsráðanda á mánudag. Kristinn Ingvarsson

Hljóðrit af fjar­skipt­um fjar­skiptamiðstöðvar rík­is­lög­reglu­stjóra sýna að lög­reglu­mönn­um, sem voru á leið í út­kall vegna inn­brots­ins á Barðaströnd, var beint að Kaupþingi í Aust­ur­stræti vegna neyðarástands þar, að sögn Geirs Jóns Þóris­son­ar, yf­ir­lög­regluþjóns hjá Lög­reglu höfuðborg­ar­svæðis­ins (LRH).

Geir Jón staðfesti það að LRH hafi unnið að þrem­ur for­gangs­verk­efn­um á sömu stundu og út­kall barst vegna ráns­ins og lík­ams­árás­ar­inn­ar á Barðaströnd kl. 20.35 á mánu­dags­kvöld. Eitt þeirra var út­kallið í Kaupþing bank­ann í Aust­ur­stræti, en það barst kl. 20.22. Geir Jón gat ekki upp­lýst annað um hin út­köll­in tvö en að lög­reglu­menn­irn­ir sem sinntu þeim hafi verið klár­lega upp­tekn­ir. 

Geir Jón hlustaði nú síðdeg­is á upp­tök­ur fjar­skiptamiðstöðvar rík­is­lög­reglu­stjóra af fjar­skipt­un­um sem fram fóru vegna út­kalls­ins á Barðaströnd. Hann sagði ljóst af þeim að tvö mótor­hjól sem voru á Hring­braut hafi verið send á Barðaströnd í beinu fram­haldi af því að fyrsta hjálp­ar­beiðni vegna inn­brots­ins barst.

Þegar þau voru á leið þangað barst neyðarkall frá lög­reglu­manni sem brugðist hafði við út­kalli í Kaupþing banka Aust­ur­stræti. Lög­reglumaður­inn sem kom fyrst­ur á staðinn taldi að maður­inn sem braust þar inn væri að skjóta á sig úr loft­byssu.

Mótor­hjóla­lög­regl­urn­ar sem voru á leið á Barðaströnd gáfu sig strax fram við neyðarkallið, enda ná­lægt Aust­ur­stræti, og þar var klár­lega neyðarástand. Fjar­skiptamiðstöðin samþykkti þá að beina mótor­hjól­un­um frek­ar í bank­ann en á Barðaströnd því þar væri þörf­in brýnni.  Síðar kom í ljós að lík­lega var það eitt­hvað sem inn­brotsþjóf­ur­inn grýtti að lög­reglu­mann­in­um í bank­an­um en ekki loft­byssu­skot sem hann varð fyr­ir.

Geir Jón sagði að upp­hafstil­kynn­ing­in á Barðaströnd hafi komið frá þriðja aðila og fyrstu upp­lýs­ing­ar um eðli máls­ins hafi ekki verið mjög skýr­ar. Hann sagði að þeim sem til­kynnti það hafi verið sagt að tæki væru á leið á staðinn, en ekki að þeim hafi verið beint annað vegna neyðarkalls­ins.

Hann benti einnig á á Barðaströnd hafi allt verið yf­ir­staðið, maður verið kom­inn á staðinn, ræn­ingjarn­ir farn­ir og ekki talið að neinn væri þar í hættu. Málið í Aust­ur­stræti hafi haft for­gang og liðið hafi smá­stund meðan verið var að ná mann­in­um þar. Eft­ir það hafi mótor­hjól­in farið á Barðaströnd.

Geir Jón sagði að upp­lýs­ing­ar um hvað þar gerðist á Barðaströnd hafi verið afar litl­ar. Lýs­ing­in sem barst var sú að hús­ráðand­inn hafi verið keflaður og sleg­inn en hafi náð að losa sig. Þá var maður kom­inn til hans.

Sam­kvæmt varðskrá al­mennu deild­ar LRH voru átta lög­reglu­bíl­ar og fjög­ur mótor­hjól, alls 12 öku­tæki á göt­um höfuðborg­ar­svæðis­ins og 17 lög­reglu­menn á þeim eft­ir kl. 20.00 á mánu­dags­kvöld. Auk þess voru þrjú tæki frá um­ferðardeild með þrem­ur mönn­um staðsett í miðborg­inni. 

Geir Jón sagði að þetta kvöld hafi m.a. verið lög­reglu­bíl­ar í Kópa­vogi, við Gull­in­brú, í Norðlinga­holti og Garðabæ. Þau tæki sem send voru á Barðaströnd og í Aust­ur­stræti hafi verið skráð í miðborg­inni og sem næst henni. 

Geir Jón kvaðst vilja biðjast inni­legr­ar vel­v­irðing­ar á því að ekki skyldi hafa verið hægt að bregðast fyrr við út­kall­inu á Barðaströnd. „Það er al­veg ljóst að þarna átti sér stað al­var­leg­ur at­b­urður. Sem bet­ur fer upp­lýst­ist hann mjög fljótt af af­skap­lega fær­um rann­sókn­ar­lög­reglu­mönn­um hjá embætt­inu,“ sagði Geir Jón. 

Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn
Geir Jón Þóris­son, yf­ir­lög­regluþjónn Friðrik Tryggva­son
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert