Vilja að ríkið styðji Strætó

Sverrir Vilhelmsson

Stúdentaráð Háskóla Íslands harmar áform Strætó bs. um niðurfellingu gjaldfrjálsra strætóferða fyrir námsmenn næsta skólaár. Ráðið tekur þó undir með stjórnarformanni Strætó og kallar eftir því að ríkið styðji við rekstur félagsins, til að mynda með niðurfellingu opinberra gjalda.Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á fundi ráðsins í gær.

„Ráðið minnir ríki og sveitafélög á mikilvægi þess að bjóða námsmönnum gjaldfrjálsar strætóferðir en langtímamarkmið þess er minni umferð einkabíla í borginni, aukin áhersla á notkun almenningssamgangna meðal ungs fólks, umhverfisvernd og aukinn sparnaður fyrir stúdenta og samfélagið í heild. Nú er tímabært að líta til framtíðar, ákveða hvers kyns höfuðborg Íslendingar vilja byggja og taka ákvarðanir sem hagnast munu samfélaginu í heild.

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar kemur fram að vinna skuli áætlun um sjálfbærar samgöngur og stuðla að því að almenningssamgöngur verði stórefldar um land allt. Stúdentaráð Háskóla Íslands kallar því eftir viðbrögðum stjórnvalda - við óskum þess að ríkisstjórnin sýni í verki að hún hyggist stórefla almenningssamgöngur og tryggi að áfram verði boðið uppá gjaldfrjálsar strætóferðir næsta skólaár."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert