Kaupfélag Skagfirðinga hefur boðist til þess að lána sveitarfélaginu Skagafirði allt að 600 milljónum króna vaxtalaust til tveggja ára eða þar til ástand skánar á fjármálamörkuðum. Fénu skal varið til byggingar
viðbyggingar við Árskóla.
Fram kemur á fréttavefnum Feyki.is í kvöld, að til sé hönnun að viðbyggingu Árskóla upp á um 1300 fm en með byggingunni sé gert ráð fyrir að færa alla kennslu grunnskólabarna á Sauðárkróki undir eitt þak en nú er kennt á tveimur stöðum auk þess sem kennslustofur eru í tveimur sumarhúsum við skólann í Freyjugötu.
Feykir segir, að málið hafi veirð kynnt af fulltrúum KS á fundi í Árskóla í gær auk þess sem fulltrúum meirihluta sveitarstjórnar hefur verði óformlega tilkynnt um boðið. Ekkert formlegt erindi eða boð hefur borist til sveitarfélagsins vegna málsins.
„Við erum að sjálfsögðu afar þakklát fyrir gott boð og það er mikilvægt að eiga fyrirtæki í héraði sem er samfélagslega sinnað og vill taka þátt í uppbyggingu sveitarfélagsins með okkur með beinum hætti. Það er ómetanlegt og eitthvað sem margir öfunda okkur af. Við þurfum hins vegar varðandi allar framkvæmdir að fara vel yfir hvert bolmagn sveitarfélagsins er á hverjum tíma til stórra fjárfestinga. Við eigum alveg eftir að fara yfir málið á vettvangi sveitarstjórnar og framhaldi af því með Kaupfélagsmönnum, segir Guðmundur Guðlaugsson, sveitarstjóri, við Feyki.