Ökumenn á Sóleyjargötu að flýta sér

Sautján ökumenn voru staðnir að hraðakstri á Sóleyjargötu í Reykjavík í gærkvöld en þar var staðsett ómerkt lögreglubifreið sem er búin myndavélabúnaði. Reynslan hefur sýnt að notkun slíks búnaðar gefur gagnlegar upplýsingar um ástand umferðarmála og auðveldar leit að lausnum þar sem þeirra er þörf, skv. upplýsingum frá lögreglu. Mælingarnar í gærkvöld eru hluti af sérstöku umferðar- og hraðaeftirliti í umdæminu.

Fylgst var með ökutækjum sem var ekið í suðurátt, að Bragagötu. Á einni klukkustund, frá kl. 20.05 til 21.05, fór 271 ökutæki þessa akstursleið og því óku 6% ökumanna of hratt. Meðalhraði hinna brotlegu var rúmlega 62 km/klst en þarna er 50 km hámarkshraði. Þrír óku á 70 km hraða eða meira en sá sem hraðast ók mældist á 73.

Tilkynnt hefur verið um hraðakstur og hávaða frá ökutækjum á kvöldin á þessum stað til lögreglu. Mörgum bifhjólum var ekið eftir götunni á meðan vöktunin stóð yfir og fylgdi þeim talsverður hávaði. Aðeins einu þeirra var samt ekið of hratt. Hávaðinn frá bifhjólunum virðist því stafa af útblásturskerfi þeirra frekar en hraðakstri, að sögn lögreglu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert