Aðgerð Ragnarök endurvakin

Skip Sea Shepherd samtakanna, Farley Mowat, fyrir utan strendur Kanada.
Skip Sea Shepherd samtakanna, Farley Mowat, fyrir utan strendur Kanada. Reuters

Sea Shepherd samtökin segja á heimasíðu sinni, að svo virðist sem endurvekja þurfi aðgerð Ragnarök þar sem Íslendingar séu nú farnir að ráðast á hvali að nýju þvert á hvalveiðibann og samþykktir Alþjóðahvalveiðiráðsins.

Samtökin birta á síðunni bréf frá ónafngreindum Íslendingi, sem biður Sea Shepherd um hjálp við að stöðva hvaladrápin við Ísland. Síðan segir:

„Árið 1986 stöðvaði Sea Shepherd Conservation Society ólöglega hvalveiðistarfsemi á Íslandi með því að sökkva helmingi íslenska hvalveiðiflotans.

Árið 2007 var skip Sea Shepherd, Farley Mowat, á leið til Íslands til að mótmæla ólöglegum hvalveiðum þegar Ísland tilkynnti að það myndi hætta útgáfu hvalveiðikvóta.

Hvalavarnaraðgerð Sea Shepherd, Ragnarök, virðist því vera hafin á ný.

Ísland er ein þriggja glæpahvalveiðiþjóða heimsins. Ísland, Japan og Noregur mynda öxul grimmdarverka og umhverfisglæpa," segir á heimasíðunni. 

Heimasíða Sea Shepherd

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert