Áfengi og eldsneyti hækka

Alþingi samþykkti að hækka áfengis-, tóbaks- og eldsneytisgjald í kvöld.
Alþingi samþykkti að hækka áfengis-, tóbaks- og eldsneytisgjald í kvöld. mbl.is/Golli

Alþingi samþykkti á tólfta tím­an­um í kvöld frum­varp, sem ger­ir ráð fyr­ir að  áfeng­is­gjald og tób­aks­gjald hækki um 15%, bif­reiðagjald hækki um 10%, ol­íu­gjald um 5 krón­ur og al­mennt vöru­gjald á bens­ín um 10 krón­ur. Stjórn­ar­andstaðan hvatti fjár­málaráðherra til að draga frum­varpið til baka.

32 þing­menn Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og Vinstri grænna greiddu at­kvæði með frum­varp­inu en 22 þing­menn Sjálf­stæðis­flokks, Fram­sókn­ar­flokks og Borg­ara­hreyf­ing­ar­inn­ar greiddu at­kvæði gegn frum­varp­inu. Lilja Móses­dótt­ir, þingmaður VG, sat hjá þegar at­kvæði voru greidd um efn­is­grein­ar frum­varps­ins eft­ir 2. umræðu.

Birk­ir Jón Jóns­son, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks, sagði þegar hann gerði grein fyr­ir at­kvæði sínu, að rík­is­stjórn­in væri ger­sam­lega úr takt við fólkið í land­inu og yki á vanda heim­il­anna en brygðist ekki við hon­um.

Frum­varpið fór tví­veg­is til um­fjöll­un­ar í efna­hags- og skatta­nefnd í kvöld, bæði eft­ir 1. og 2. umræðu. Eygló Harðardótt­ir, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, sagði að full­trú­ar ASÍ og Sam­taka at­vinnu­lífs­ins, sem komu á fund efna­hags- og skatta­nefnd­ar í kvöld, hefðu tekið und­ir gagn­rýni stjórn­ar­and­stöðunn­ar á frum­varpið vegna þeirra áhrifa, sem það hef­ur á vísi­tölu neyslu­verðs og þar með verðtryggðar skuld­ir og rekst­ur rík­is­sjóðs. Eygló sagði, að fram hefði komið að frum­varpið kynni að hafa áhrif á viðræður rík­is­ins og aðila vinnu­markaðar­ins um stöðug­leika­sátt­mála.

Þau Eygló, Þór Sa­ari, þingmaður Borg­ara­hreyf­ing­ar­inn­ar, og Tryggvi Þór Her­berts­son, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks, skoruðu á fjár­málaráðherra að draga frum­varpið til baka og kanna hvort ekki væri eitt­hvað hæft í þeirri gagn­rýni, sem komið hefði fram á það.

Sagði Tryggvi Þór að verið væri að taka ákvörðun, sem líkt­ist bútasaumi.  Fyrr í dag sagði Tryggvi Þór, að frum­varpið yki tekj­ur rík­is­ins um 2,7 millj­arða króna á þessu ári en yki skuld­ir heim­il­anna um 8 millj­arða vegna þeirra áhrifa, sem það hef­ur á vísi­tölu neyslu­verðs. Í kvöld benti hann einnig á, að fjár­laga­hall­inn yk­ist vegna þess að per­sónu­afslátt­ur í staðgreiðslu­kerfi skatta hækkaði.

Þór Sa­ari sagði að þing­menn Borg­ara­hreyf­ing­ar­inn­ar hefðu í gær hitt full­trúa Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins í mjúk­um stól­um á Hót­el Borg. Hafði hann eft­ir full­trú­um sjóðsins, að þeim þætti of seint hafa gengið af hálfu stjórn­valda  að gera þetta og hitt.

„Það sem krist­all­ast í þessu frum­varpi er að rík­is­stjórn­in hleyp­ur upp til handa og fóta til að þjónkast Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðnum vegna þess að hann er eitt­hvað að hrista horn­in fram­an í hana og kem­ur fram með frum­varp sem er illa unnið og vont," sagði Þór og bætti við að frum­varpið myndi stór­auka skuld­ir rík­is­sjóðs. Nauðsyn­legt væri að af­nema verðtrygg­ing­una.

Helgi Hjörv­ar, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, sagði að Íslend­ing­ar hefðu þróað flókið kerfi víxl­verk­ana og verðtrygg­inga sem gerði það að verk­um að aðgerðir af þessu tagi gætu haft áhrif á ýmsa aðra liði. Þetta væru sömu áhrif og sams­kon­ar aðgerðir fyrr í vet­ur hefðu haft. 

Hann sagði þess­ar aðgerðir miðuðu fyrst og fremst að því að vinna bug á þeim vanda, sem við væri að etja á yf­ir­stand­andi ári, sem væri sá að það stefni í 20 þúsund millj­arða meiri halla­rekst­ur rík­is­ins en lagt var upp með. Því væru mál­efna­leg sjón­ar­mið fyr­ir því, að við nú­ver­andi aðstæður þyrfti fólk að greiða hærra verð fyr­ir áfengi, tób­ak og eldsneyti.  

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert