Við skyndikönnun sem Vinnumálastofnun framkvæmdi á byggingarstað nýja tónlistarhússins í fyrradag kom í ljós að 15 verkamenn sem unnu við járnabindingar voru á atvinnuleysisbótum og því í raun á launum hjá íslenskum skattgreiðendum. Þeir eru starfsmenn undirverktaka, en það fyrirtæki er í erlendri eigu. Að sögn Gissurar Péturssonar, forstjóra Vinnumálastofnunar, voru mennirnir umsvifalaust sviptir bótunum.
Fyrirtækið Íslenskir aðalverktakar er byggingaverktaki við tónlistarhúsið. Að sögn Gissurar var skyndikönnunin gerð í nánu samráði við fyrirtækið. Vinnumálastofnun hefur í framhaldinu leitað eftir frekari gögnum um mennina, s.s. launaseðlum, tímaskýrslum og vinnuskýrslum. Að sögn Gissurar liggur fyrir að umrætt fyrirtæki greiddi mönnunum einhverja upphæð umfram atvinnuleysisbæturnar. Er meðal annars verið að kanna hvort þessar greiðslur hafi verið gefnar upp til skatts. Aðrir starfsmenn fyrirtækisins reyndust ekki vera á atvinnuleyisskrá.
Vinnumálastofnun hefur aukið eftirlit með hugsanlegri misnotkun á atvinnuleysisbótakerfinu. Tveir starfsmenn stofnunarinnar hafa unnið að þessu verkefni og þeim verður fjölgað á næstunni.