Læknar flýja kreppuland

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Horfur í nýliðun og mönnun íslensku læknastéttarinnar eru slæmar. „Áhyggjur okkar eru þær að læknar sem eru að vinna erlendis eða eru í sérnámi komi ekki heim í þessu ástandi,“ segir Sólveig Jóhannsdóttir, hagfræðingur Læknafélags Íslands. Samantekt Sólveigar á þessum málum var kynnt á vegum félagsins í gær.

Hingað til sýnir reynslan að 80% af þeim sem fara út í sérnám koma aftur, en nú eru þær heimtur að sögn verri en nokkru sinni fyrr. Nýliðun í mörgum sérgreinum er nánast engin og ár eftir ár hefur mjög svipaður fjöldi útskrifast úr læknadeild, þrátt fyrir fólksfjölgun. Einnig er vitað að margir læknar horfa nú til útlanda eftir tækifærum.

Ofan á þetta bætist svo að manneklan var til staðar fyrir. Á Íslandi starfa 1.087 læknar og sinna því að meðaltali 294 manneskjum hver. Læknar í Danmörku sinna hins vegar að meðaltali 261 manneskju hver. Sérstaklega sinnir hver heimilislæknir mörgum hér á landi miðað við hin Norðurlöndin. Fram kom hjá Læknafélaginu í gær að ef taka ætti upp tilvísanakerfi að danskri fyrirmynd, eins og heilbrigðisráðherra áformar, þyrfti strax að fjölga heimilislæknum um 25. Nýlega var auglýst laus til umsóknar staða heimilislæknis í Reykjavík. Enginn sótti um hana.

Af einstökum stéttum má nefna geðlækna, röntgenlækna og taugaskurðlækna, en þar er staðan ekki góð. Nýlega var auglýst staða geðlæknis á Landspítalanum, en enginn sótti um. Á sama tíma hafa að sögn Sólveigar birst auglýsingar frá erlendum spítölum hér. Nýlega auglýsti stofnun nálægt Gautaborg í Svíþjóð í Læknablaðinu, eftir tíu til tuttugu geðlæknum. Nú starfa fjórir taugaskurðlæknar á Íslandi, en sá fimmti flutti úr landi á síðasta ári. Þrír þeirra eru fimmtugir eða eldri og álagið á þeim gífurlegt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert