Lífeyrissjóðir lána borginni

Uppbygging á horni Lækjargötu og Austurstrætis eftir brunann árið 2007 …
Uppbygging á horni Lækjargötu og Austurstrætis eftir brunann árið 2007 stendur fyrir dyrum. mbl.is/Júlíus

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag tillögu borgarstjóra um 5 milljarða króna lántöku til að fjármagna framkvæmdir á vegum Reykjavíkurborgar á árinu 2009. Lánið er tekið með skuldabréfaútboði til 45 ára en þegar liggja fyrir skuldbindandi fyrirheit frá lífeyrissjóðum um kaup á 5 milljörðum.

Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu borgarstjóra er lánið tekið til að fjármagna framkvæmdaáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2009 í samræmi við sameiginlegan vilja borgarstjórnar sem endurspeglist í aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar um að tryggja fjármögnun fyrir nauðsynlegum framkvæmdum og forgangsraða þeim í þágu atvinnustigs.

Framkvæmda- og eignaráð hefur í tengslum við lántökuna forgangsraðað framkvæmdum en áætlað er að með þeim verði hægt að tryggja allt að 650 störf í Reykjavík. Fyrir utan þessar nýframkvæmdir sem hafa nú verið fjármagnaðar leggur Reykjavíkurborg um 3,5 milljarða króna í viðhald gatna, opinna svæða og fasteigna en áætlað er að þær viðhaldsframkvæmdir skapi til viðbótar allt að 350 aðkeypt störf á árinu, fyrir utan störf borgarstarfsmanna. 

Hæstu upphæðir fara til byggingar skóla og leikskóla eða um 1,5 milljarður og vegur þar þyngst uppbygging Sæmundarskóla og Norðlingaskóla en til þeirra framkvæmda fara 700 milljónir. 

Í miðborginni eru nokkrar framkvæmdir og má þar nefna uppbyggingu á horni Lækjargötu og Austurstrætis eftir bruna, endurgerð á Laugavegi 4-6 og þá standa yfir framkvæmdir við endurgerð Tjarnarbíós. Til framkvæmda í miðborginni eru áætlaðar 775 milljónir. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert