Mælt fyrir hækkun gjalda

Eldsneyti hækkaði í dag og mun hækka meira á morgun.
Eldsneyti hækkaði í dag og mun hækka meira á morgun.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, mælti nú á sjöunda tímanum fyrir frumvarpi um hækkun opinberra gjalda á áfengi, tóbaki og eldsneyti. Sagði Steingrímur að þetta væri liður í nauðsynlegum aðhaldsaðgerðum stjórnvalda í ríkisfjármálum.

Um er að ræða 15% hækkun á áfengisgjaldi og tóbaksgjaldi, 10% hækkun á bifreiðagjaldi, 10 króna hækkun á almennu bensíngjaldi og 5 króna hækkun á olíugjaldi, en á móti vegur 20% lækkun á kílómetragjaldi auk þess sem endurgreiðsluhlutfall olíugjalds vegna rekstrar almenningsvagna  í áætlunarferðum er hækkað úr 80% í 85%.

Steingrímur sagði, að lögð væri til minni hækkun olíugjalds en bensíngjalds til að gera rekstrarumhverfi dísilfólksbifreiða hagstæðara í samanburði við bensínfólksbifreiðar. Sagði hann, að þar sem útsöluverð á dísilolíu hafi verið nokkuð hærra en útsöluverð á bensíni undanfarin ár hafi fjölgun dísilfólksbifreiða ekki verið eins hröð og vonast var til með upptöku olíugjalds í stað þungaskatts árið 2005. Með því að hækka olíugjald minna en bensíngjald sé reynt að koma jafnvægi á útsöluverð þessara eldsneytisgjafa þannig að lítri af dísilolíu verði ódýrari en lítri af bensíni og þannig ýtt undir frekari dísilvæðingu fólksbílaflota landsmanna.

Fjármálaráðherra gat þess, að verið væri að skoða þá breytingu á vörugjöldum á ökutækjum að  lækka tolla og aðflutningsgjöld á sparneytnum bílum þannig að endurnýjun bílaflotans verði einkum í þannig bílum.

Í frumvarpinu er lögð til lækkun á kílómetragjaldi, almennu og sérstöku, á móti hækkun bensíngjalds og olíugjalds. Með því móti er dregið úr áhrifum þessara breytinga á flutningskostnað og þar með vöruverð.

Viðbótartekjur ríkissjóðs af þessu eru áætlaðar samtals 4,4 milljarðar króna á ársgrundvelli, en áhrif þeirra á tekjur ríkissjóðs á þessu ári nema um 2,7 milljörðum. Tekjur af áfengisgjaldi eru áætlaðar 1,1 milljarður króna, 620 milljónir af tóbaksgjaldi, 520 milljónir af bifreiðagjaldi, 1970 milljónir af bensíngjaldi og 690 milljónir af olíugjaldi, en á móti kemur að tekjur lækka um 490 milljónir vegna lækkunar á kílómetragjaldi.  Heildaráhrif þessara breytinga á vísitölu neysluverðs eru metin á 0,5% til hækkunar.

Frumvarpið í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert