Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að þingsályktunartillaga Sjálfstæðis- og Framsóknaflokksins um ESB sé afar athyglisverð. „Þá virðist nú þingviljinn liggja skýrar fyrir í þeim efnum.“ Ágreiningurinn virðist því minni snúist hann aðeins um hvernig skuli staðið að viðræðunum.
„Auðvitað er það alveg rétt að það þarf að vanda, bæði undirbúninginn og það þarf að vanda ferlið ef menn leggja í þennan leiðangur. Og mér virðist þar af leiðandi ekki vera mikill ágreiningur, eða miklu minni en ætla mátti, ef hann stendur bara um þetta, hvernig skuli haga undirbúningnum. Auðvitað er það ljóst að einhver hluti þingmanna er andvígur því að fara í þennan leiðangur, og hér greiða menn atkvæði í samræmi við sannfæringu sína og samvisku og ekkert annað,“ segir Steingrímur.
Aðspurður ítrekar hann að aðild að ESB sé ekki stóra málið sem stjórnvöld standi frammi fyrir. „Mér er alltaf að verða betur og betur ljós þá átök sem framundan eru ef við ætlum að hafa okkur í gegnum þetta.“
Steingrímur tekur undir það sjónarmið að það sé mjög mikilvægt að meirihluti þingsins standi sameinaður um þetta mál. Það sé hins vegar afar umdeilt á þinginu, meðal hagsmunaaðila og almennings. Mönnum beri því skylda til að vanda sig. „Að sjálfsögðu er aðalatriðið það að þjóðin á svo að ákveða örlög sín í þessu stóra afdrifaríka máli. Frá því verður ekki hvikað.“