Robert S. Connan, sem Barack Obama, Bandaríkjaforseti hefur útnefnt í embætti sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, hefur m.a. starfað á vegum Bandaríkjastjórnar í Svíþjóð. Hann hefur undanfarna mánuði starfað hjá viðskiptanefnd sendinefndar Bandaríkjanna gagnvart Evrópusambandinu.
Connan hefur einnig starfað á vegum Bandaríkjastjórnar í Sádi Arabíu, Suður-Afríku, Alsír, Kúveit, Suður- Kóreu, Ítalíu, Ástralíu, Nýja Sjálandi og Frakklandi. Þá hefur hann unnið að sérstökum viðskiptatengdum verkefnum í Kína og Írak þar sem hann vann að stofnun íraskrar viðskiptamiðstöðvar.
Samkvæmt upplýsingum bandaríska sendiráðsins tekur hann líklega við störfum hér á landi í haust. Áður en til þess kemur þarf Bandaríkjaþing að staðfesta útnefningu hans og fer það eftir því hversu hratt það ferli gengur hvenær hann kemur hingað til lands.
Hann mun taka við af Carol von Voorst, sem verið hefur sendiherra Bandaríkjanna hér á landi frá árinu 2001.