Sérsveitin tók á móti skötuselsveiðimönnum

Áhafnir tveggja Suðurnesjasmábáta vissu ekki hvað var að gerast þegar þær komu í land á dögunum eftir að hafa verið á skötuselsveiðum. Samkvæmt heimildum Víkurfrétta tóku á móti þeim sérsveitarmenn lögreglu í fullum skrúða, fíkniefnahundar og tveggja tíma umfangsmikil leit var gerð í bátunum.

Á vef Víkurfrétta segir: „Áhafnirnar höfðu reyndar veitt því athygli þegar þær voru að veiðum á fengsælli skötuselsslóð úti fyrir Garðskaga að þyrla Landhelgisgæslunnar mætti skyndilega á svæðið og hafði miklar gætur á bátunum. Allt þetta gerðist í kjölfar þess að bátarnir tveir höfðu verið „grunsamlega“ nálægt fraktskipi sem var að koma til landsins, en öll fara þau fyrir Garðskaga.

Ratsjár í landi og sjálfvirkur tilkynningabúnaður gáfu til kynna að leiðir Suðurnesjasmábátanna og fraktskipsins hefðu legið saman úti fyrir Garðskaga. Í ljósi þess að nýverið var komið með á annað hundrað kíló af fíkniefnum með skútu upp að austurströndinni, vildu yfirvöld hafa vaðið fyrir neðan sig og grandskoðuðu smábátana þegar þeir komu í land. Um borð var hins vegar ekkert að finna nema ferskan skötusel og þreytta sjómenn sem voru eitt spurningamerki yfir tilstandinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka