Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að það væri sterkara fyrir samningsstöðu Íslendinga gagnvart Evrópusambandinu, að það náist grundvallarsamstaða á Alþingi um aðildarumsókn. Það þýðir, sagði þingmaður Framsóknarflokks, að stjórnarflokkarnir verða að sýna geysilegan lipurleika.
„Það þýðir," sagði Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, „að Samfylkingin og Vinstri grænir verða að sýna geysilegan lipurleika í þinginu og koma til móts við hina flokkana til að skapa sterkt samningsumboð. Þessi staða krefst þess að ríkisstjórnin geri allt sem í hennar valdi stendur til að skapa sátt inn í þinginu þannig að við getum sem flest greitt atkvæði með aðildarumsókn og fylgt henni svo hart fram í viðræðum.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að væri það skoðun Össurar að þingsályktunartillaga Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sýni að hægt verði að ná samstöðu um málið á þingi, þá ætti að hætta að ræða tillögu ríkisstjórnarinnar og ræða frekar um tillögu stjórnarandstöðunnar.
Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, sagði að í tillögu ríkisstjórnarinnar væri haldið til haga þeim sjónarmiðum, sem flokkurinn hefði lýst í málinu. Hann sagðist myndu, sem formaður utanríkismálanefndar, reyna að ná sem breiðastri samstöðu í nefndinni um verklag og vinnu við tillöguna og ekki myndi standa á honum, að sem flestir geti orðið samferða um málið.
Þetta snýst um það, sagði Árni, hvort við höfum lyðræðislegan þroska til að takast á við þetta viðfangsefni og sætta okkur við þá niðurstöðu sem lýðræðið og þingræðið leiðir til.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, og fleiri túlkuðu ræðu Árna Þórs þannig, að í raun væri hann að lýsa yfir stuðningi við þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar.