Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði afdráttarlaust á Alþingi í dag að hún vildi að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu en þó ekki á þeim forsendum, sem settar eru fram í þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar.
„Ég vil sækja um aðild að Evrópusambandinu," sagði Þorgerður Katrín í umræðu um stjórnartillöguna í dag. „En ég vil ekki gera það á þessum forsendum því mér finnst það til vansa hvernig unnið hefur verið að þessari tillögu."
Þorgerður Katrín sagði m.a. að í stjórnartillögunni væri ekkert fjallað um það hvers vegna gott væri að fara þá leið við aðildarumsókn sem þar er lýst. „Við skulum bara segja söguna eins og hún er: Þetta var bara til að koma ríkisstjórninni saman. Þetta var bara plagg upp á punt, ekki neitt pólitískt innihald."
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði í umræðunum að svo virtist sem ríkulegur þingmeirihluti væri fyrir að fara í viðræður. Ágreiningurinn virðist því vera hvernig eigi að undirbúa slíka umsókn og hvernig haga eigi því ferli.