Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, vill hafa það sem reglu á Alþingi að við mat á breytingum verði ávallt verði tekið tillit til óbeinna áhrifa, t.d. hvað varðar skattahækkanir eða niðurskurð í ríkisútgjöldum.
„Það er náttúrulega mjög erfitt að þurfa hækka útgjöld ríkisins, sem koma beint inn í verðlagsvísitöluna. Sérstaklega núna þegar að mörg heimili eru algjörlega að kikna undan greiðslubyrðinni. Þannig að ég hef verið að biðja um það hérna innanhúss, eða í þinginu, að fá alltaf útreikninga á óbeinum áhrifum af aukinni tekjuöflun ríkissjóðs, eða þegar verið er að skera niður hjá ríkissjóði. Hvað þýðir svona hækkun á bensínverði og áfengi fyrir þær bætur sem eru vísitölutengdar,“ segir Lilja.
Lilja segir að þetta séu vinnubrögð sem hagfræðingarnir á þingi vilji hafa sem reglu. „Við viljum fá að vita hvort við erum að tala um brúttótölur eða nettótölur. Og hvort að í raun og veru sé búið að taka tillit til allra þátta sem breytingar hafa áhrif á.“
Lilja greiddi ekki atkvæði með frumvarpi fjármálaráðherra um skattahækkanir í gær fyrr en búið var að gera nauðsynlegar breytingar á því.
„Ég ákvað að greiða ekki atkvæði til að undirstrika þá kröfu mína að við fengjum öll frumvörp þannig frá fjármálaráðuneytinu að við sæjum hver heildarútgjaldaaukning yrði við einhverja lagabreytingu, eða heildartekjuaukning ríkissjóðs yrði við lagabreytingu, og líka óbein áhrif af þessum útgjalda- eða tekjuauka á aðra þætti í starfsemi ríkisins.“
Gerðar voru nauðsynlegar breytingar og greiddi Lilja atkvæði með frumvarpinu við seinni atkvæðagreiðsluna.