„Við vitum það að þetta kemur harðast niður á þeim sem að minnst hafa, og nú hefur það verið yfirlýst stefna stjórnvalda að þessar aðgerðir eigi ekki að bitna á þeim sem minna hafa umleikis. Þannig að þetta er auðvitað mjög öfugsnúið að fá þessa hækkun ofan á allt sem á undan er gengið,“ segir Runólfur.
Hann bendir á að bensínlítrinn hafi hækkað um 26 kr. í þessum mánuði. Þetta þýði að kostnaðurinn við að reka venjulega fólksbifreið hafi hækkað um 50.000 kr. á ársgrundvelli.
Runólfur bendir á að nú sé sá tími þegar eldsneytisverð á heimsmarkaði sé á uppleið. Ekki sjái fyrir endann á eldsneytishækkunum.
„Bensínverð um þessar mundir, semsagt sjálfsafgreiðsluverð á þjónustustöðvum, er komið yfir 181 kr. Við höfum aldrei séð jafn hátt bensínverð. Þetta gerist á sama tíma og fólk er að verða fyrir tekjutapi. Í rauninni mjög furðulegt að ríkisstjórnin skuli beina sér í þessa átt.“