tæplega 300 börn fengu leikskólapláss á einu bretti í Reykjavík síðastliðið haust. Eftir bankahrunið var allt í einu hægt að fullmanna leikskólana. Meirihluti þessara barna var hjá dagforeldrum eða á biðlista hjá þeim.
„Það hefur aldrei gerst í þau 30 ár sem ég hef verið dagmamma að ég hafi ekki verið með barn á biðlista, fyrr en nú. Núna sé ég fram á að verða með færri börn en venjulega í haust,“ segir Inga Hanna Dagbjartsdóttir.
Hún segir þjónustutryggingarnar, sem eru 35 þúsund króna styrkur sem foreldrar geta ráðstafað að vild vegna gæslu barna sinna, einnig hafa haft þau áhrif að börnum hjá dagforeldrum hafi fækkað.
„Við erum allar að verða atvinnulausar,“ segir Inga Hanna.
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, formaður leikskólaráðs Reykjavíkur, minnir á að mikill þrýstingur hafi verið á kerfinu í langan tíma vegna skorts á þjónustuúrræðum. „Við vissum að með fullmannaða leikskóla og fullnýtt dagforeldrakerfi væru um 1.000 börn samt án þjónustu. Þess vegna var þjónustutryggingunum komið á í september. Sumir hafa þá kannski ákveðið að bíða eftir leikskóla í stað þess að fara inn í dagforeldrakerfið.“
Að sögn Þorbjargar Helgu greiðir Reykjavíkurborg þjónustutryggingu fyrir 700 börn. Hún gerir ráð fyrir því að þessi tala eigi eftir að lækka í haust. „Við tökum ekki börn inn í leikskólana fyrr en á haustin. Nú eru um 200 fleiri börn sem þurfa þjónustu heldur en í fyrra. Foreldrar þeirra munu líka sækja inn í dagforeldrakerfið.“ ingibjorg@mbl.is