FøroyaTele, stærsta fjarskiptafyrirtæki Færeyja, hefur haft samband við Landsbankann vegna hugsanlegra kaupa á Vodafone á Íslandi, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.
Føroya Tele er í eigu færeyska ríkisins og er í beinni samkeppni við Vodafone í Færeyjum, sem er dótturfélag Teymis, móðurfélags Vodafone á Íslandi. Á grundvelli nauðasamnings Teymis mun bankinn fara með 57,2% hlutafjár í Teymi, en á fimmtudag í næstu viku á fundi lánardrottna kemur í ljós hvort samningurinn fær brautargengi. Landsbankinn var langstærsti lánardrottinn Teymis.
Fjölmörg fyrirtæki hafa haft samband við Landsbankann undanfarið með fyrirspurnir um Vodafone. Ef bankinn ákveður að selja eignarhlut sinn í náinni framtíð verður það aðeins að undangengnu ströngu og gegnsæju tilboðsferli, en nýlega stofnaði bankinn tvö umsýslufélög vegna yfirtekinna eigna.
Ekki fékkst uppgefið hjá Landsbankanum í gær hvort eða hvenær af sölu Vodafone verður. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum verður tilboðsferli, ef af því verður, opið og gegnsætt og tilkynnt með formlegum hætti. Er vísað til söluferlis Íslandsbanka á Árvakri í þessu samhengi.
Landsbankinn mun fara með eignarhlut sinn í Teymi í samræmi við svokallaða Lundúnaleið, en bankinn hefur stofnað sérstök eignaumsýslufélög til að fara með eignir sem bankinn tekur yfir vegna erfiðleika skuldara. Um er að ræða Regin ehf. undir stjórn Helga Gunnarssonar, fyrrverandi framvæmdastjóri Portusar, og Vestia ehf. sem Steinþór Baldursson stýrir, en hann var yfir fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans og kom að undirbúningi Icesave-reikninganna.