Hárrétt viðbrögð flugmanns

Flugvélin á veginum eftir nauðlendinguna.
Flugvélin á veginum eftir nauðlendinguna.

Rann­sókn­ar­nefnd flug­slysa seg­ir, að rétt viðbrögð flug­manns, sem lenti á þjóðveg­in­um um Holta­vörðuheiði fyr­ir tæpu ári þegar hreyf­ill flug­vél­ar hans missti afl, hafi leitt til þess hve nauðlend­ing­in tókst vel.

Flugmaður­inn var á leið með farþega frá Reykja­vík til Blönduóss á eins­hreyf­ils, tveggja sæta flug­vél af gerðinni Cessna 150M. Flugmaður­inn und­ir­bjó flugið með hefðbundn­um hætti og starfaði hreyf­ill­inn meðal ann­ars eðli­lega. Flugmaður­inn áætlaði um það bil tveggja stunda flug til Blönduóss.

Flugmaður­inn var ekki kunn­ug­ur flug­leiðinni frá Reykja­vík til Blönduóss og ákvað því að fylgja þjóðvegi 1 frá Borg­ar­nesi til Blönduóss. Þegar flug­vél­in var að nálg­ast Norðurár­dal varð flugmaður­inn var við að hreyf­ill­inn fór að ganga óreglu­lega og féll snún­ing­ur hreyf­ils­ins síðan ró­lega. Flugmaður­inn breytti  eldsneyt­is­blönd­unni og setti auk þess blönd­ungs­hit­ar­ann á. Það hafði ekki áhrif á gang hreyf­ils­ins og eft­ir að hafa skimað yfir mæla flug­vél­ar­inn­ar tók hann eft­ir því að olíuþrýst­ing­ur­inn hafði fallið. Skömmu síðar missti hreyf­ill­inn allt afl.

Fram kem­ur í skýrslu rann­sókn­ar­nefnd­ar­inn­ar, að flugmaður­inn beitti þá neyðarviðbrögðum og skimaði meðal ann­ars eft­ir nauðlend­ing­arstað. Þar sem  um­hverfið var grýtt og ekki heppi­legt til lend­ing­ar ákvað flugmaður­inn að lenda á þjóðvegi 1 í  sunn­an­verðri Holta­vörðuheiðinni. Eft­ir að hafa fylgst með um­ferð bif­reiða á veg­in­um lenti flugmaður­inn  tókst lend­ing­in vel.

Eft­ir lend­ing­una gekk flugmaður­inn frá flug­vél­inni þannig að hún truflaði um­ferð sem minnst.

Rann­sókn­ar­nefnd­in seg­ir í niður­stöðum sín­um, að í ljós hafi komið að ol­íurör hafi losnað, lík­lega vegna þess að ekki hafi verið gengið nægi­lega tryggi­lega frá því við síðustu yf­ir­ferð hreyf­ils­ins.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka