Samþykkt var á ráðherrafundi Evrópuráðsins í Reykjavík í dag, að aðildarríki ráðsins skuli reglulega endurskoða lög sín um baráttu gegn hryðjuverkum og hvernig þeim er beitt. Þannig verði komið í veg fyrir að þeim sé misbeitt í málefnum sem eru alls óskyld hryðjuverkum, svo sem til að hefta tjáningarfrelsi eða halda upplýsingum leyndum.
Á fundinum var sérstaklega fjallað um fjölmiðla og nýja miðla og hvernig þeir hefðu breyst með tilkomu, leitarvéla, samskiptavefja og netveita. Einnig var fjallað um áhrif nýrra miðla á tjáningarfrelsi og persónuvernd.
Í lokayfirlýsingu fundarins segja ráðherrarnir, að fram hafi komið áhyggjur af því, að hryðjuverkalög í tilteknum löndum sem takmarka tjáningarfrelsi og upplýsingastreymi séu of víðtæk og innihaldi ekki ákvæði sem komi í veg fyrir misnotkun þeirra.