Jörð skalf við Grindavík

Grænu stjörnurnar sýna upptök skjálftanna.
Grænu stjörnurnar sýna upptök skjálftanna.

Snarpur jarðskjálfti varð í kvöld norðvestur af Grindavík og fannst vel á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt óyfirförnum tölum á vef Veðurstofunnar var skjálftinn 3,9 stig á Richter og átti upptök sín nálægt Svartsengi.

Samkvæmt vef evrópsku jarðskjálftastofnunarinnar var skjálftinn 4,7 stig. 

Fjöldi eftirskjálfta hefur fylgt í kjölfarið en þeir eru allir minni eða á bilinu 1,5-2,2 stig.

Að sögn vakthafandi lögreglumanns á Suðurnesjum hafa engar tilkynningar borist um tjón eða meiðsli vegna skjálftans, þótt hann hafi sennilega ekki farið fram hjá neinum íbúa Grindavíkur. Þar svignuðu rúður í húsum og hurðar fóru á hreyfingu en Suðurnesjabúar virðast upp til hópa hafa tekið skjálftanum af stakri ró að sögn lögreglunnar.

Í dag er ár liðið frá Suðurlandsskjálftunum sem ollu miklu tjóni í Hveragerði, Ölfusi og Árborg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka