Hrafnistuheimilin hafa tilkynnt landlæknisembættinu um lát heimilismanns á Hrafnistu í Hafnarfirði og samkvæmt vinnuferlum óskað eftir lögreglurannsókn, þótt ekki séu uppi grunsemdir um að saknæmt athæfi hafi átt sér stað.
Starfsmaður Hrafnistu heyrði hávaða berast frá herbergi 87 ára gamallar konu undir kvöld föstudaginn 22. maí síðastliðinn. Starfsmaðurinn fór umsvifalaust á vettvang. Þá var í herbergi konunnar níræður karlmaður sem býr í herbergi á hæðinni beint fyrir neðan.
Konunni var mjög brugðið en engir áverkar sáust á henni og hún kenndi sér einskis meins. Hvorugt þeirra gat þó greint frá því sem gerst hafði. Fylgst var vel með þeim báðum um kvöldið og næstu nótt.
Eftir læknisskoðun daginn eftir var ákveðið að leggja konuna inn á hjúkrunardeild þar sem hún lést fimmtudaginn 28. maí 2009. Maðurinn er undir eftirliti hjúkrunarfólks.
Aðstandendur fólksins voru þegar upplýstir um atvikið og lögreglurannsóknina sem er eðlileg í máli sem þessu, segir í yfirlýsingu frá Hrafnistuheimilunum.