„Frá því að við opnuðum og til kl. 14 erum við búin að afgreiða um 7.500 viðskiptavini. En á sambærilegum föstudegi í fyrra, sem var reyndar ekki föstudagur fyrir hvítasunnu, þá afgreiddum við 4.700 á sama tíma,“ segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR. Áfengissalan sé mikil.
Það hefur því mikið verið um að vera í áfengisverslunum í dag í kjölfar þess að Alþingi samþykkti í gær 15% hækkun á gjöldum á áfengi og tóbaki.
Sigrún Ósk tekur það hins vegar fram að verðhækkunin hafi ekki tekið gildi ennþá. Þær taki líklega ekki gildi fyrr en eftir helgi.
„Léttvín og bjór er núna að hækka á bilinu 6-7% á meðan sterka vínið er nær því að vera 10-11%,“ segir Sigrún Ósk.
Á vef Vínbúðanna má sjá dæmi um verðbreytingar.