Gjöld hækka á áfengi, tóbak, bensín og olíu nú þegar frumvarp Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra þess efnis hefur verið samþykkt. Gjöld á áfengi og tóbak hækka um 15%, bensíngjald hækkar um 10 krónur á lítrann en olíugjaldið um fimm krónur. Þá hækka bifreiðagjöld um 10%. Áætlað er að þetta skili 4,4 milljörðum í ríkissjóð á ári. Þar af eiga álögur á áfengi og tóbak að skila 1.700 milljónum.
Hermann Guðmundsson, forstjóri N1 segir álögurnar á eldsneyti nú mjög miklar miðað við fyrir nokkrum mánuðum. „Stjórnvöld hafa nú hækkað eldsneytisverð um 16 krónur á fáum vikum og eru álögur ríkisins nú í hæstu hæðum.“ Forstjóri Skeljungs, Einar Örn Ólafsson, heitir á stjórnvöld að ná árangri í gengismálunum svo að hækkunin gangi til baka.
Félag íslenskra bifreiðaeigenda sagði yfirvöld í skattavíking gegn bifreiðaeign og -notkun landsmanna. Fulltrúar bæði SA og ASÍ mættu fyrir þingnefndir í gærkvöldi og töluðu samkvæmt heimildum mjög gegn frumvarpinu þar. Þórður B. Sigurðsson, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, segir að setja hefði átt hámark á verðtrygginguna áður en farið var út í svona aðgerðir, svo að þær spiluðu ekki með skuldir heimilanna. Hann talar um ríkisverðbólgu.