Sex stjórnarmenn í VR hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir segja að unnið hafi verið skipulega gegn nýjum formanni og nýjum stjórnarmönnum frá síðasta aðalfundi VR, af fólki, sem áður gengdi og gegni trúnaðarstörfum hjá félaginu.
Ný stjórn og formaður voru kjörin í byrjun mars fyrir utan níu stjórnarmenn sem héldu sætum sínum í yfirstjórn félagsins.
Yfirlýsingin er eftirfarandi:
„Við nýjir stjórnarmenn í VR eru miður okkar yfir stöðunni sem upp er kominn innan félagsins. Staðan er alvarleg vegna þess að búið er að vinna skipulega gegn nýjum formanni og nýjum stjórnarmönnum frá síðasta aðalfundi VR, af aðilum sem áður gengdu og gegna trúnaðarstörfum hjá félaginu.
Við buðum okkur fram til trúnaðarstarfa fyrir félagsmenn af fullum heilindum. Undirritaðir stjórnarmenn hlutu lýðræðislega kosningu af félagsmönnum í fyrstu allsherjarkosningu til stjórnar VR í mars sl."
Undir þetta skrifa:
Ágúst Guðbjartsson
Ásta Rut Jónasdóttir
Bergur Þór Steingrímsson
Bjarki Steingrímsson
Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir
Ragnar Þór Ingólfsson.