Jarðskjálftinn, sem átti upptök sín um 8 km norðaustur af Grindavík, var 4,7 stig á Richter samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni. Fyrri tölur um 3,9 á Richter voru vanmat að sögn Gunnars Guðmundssonar, jarðskjálftafræðings hjá Veðurstofunni.
Jarðskjálftinn fannst viða um suðvestanvert landið, vestur undir Búðardal
og austur að Hvolsvelli. Upptök jarðskjálftans eru á flekaskilunum á Reykjanesskaga sem er þekkt jarðskjálftasvæði.
Skjálftinn varð klukkan 21:33 en að sögn Gunnars voru forskjálftar byrjaðir fyrr í dag og hafði því verið titringur í jörðu fyrir stóru skjálftana.
Fjöldi minni skjálfta hefur síðan fylgt í kjölfarið, hinir fyrstu mældust í kringum 3 á Richter en þeir hafa smám saman smækkað þótt íbúar Grindavíkur muni hugsanlega finna fyrir skjálftum næstu klukkustundirnar.
„Það er alls ekki ólíklegt að þetta haldi áfram að hristast eitthvað fram eftir nóttu,“ segir Gunnar en jarðskjálftahrinur eru algengar á Suðurnesjum þótt nokkuð sé liðið síðan svo stór skjálfti mældist.
Að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum hafa engar tilkynningar borist um tjón eða meiðsli vegna skjálftans, þótt hann hafi sennilega ekki farið fram hjá neinum íbúa Grindavíkur. Þar svignuðu rúður í húsum og hurðar fóru á hreyfingu.