Tap á rekstri Hafnarfjarðar

Hafnarfjörður.
Hafnarfjörður. www.mats.is

Tap af rekstri A hluta bæjarsjóðs Hafnarfjarðar nam tæplega 2,1 milljarði króna á síðasta ári og samtals var 4,2 milljarða króna tap á rekstri bæjarsjóðs og B-hluta fyrirtækja bæjarins eftir fjármagnsliði. Ársreikningur bæjarnins fyrir síðasta ár verður tekinn til fyrri umræðu í bæjarstjórn Hafnarfjarðar á þriðjudag.  

Fram kemur í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ, að fyrir fundinum liggi einnig fyrir tillaga að samkomulagi um yfirtöku Hafnarfjarðarbæjar á rekstrarsamningum vegna þeirra einkaframkvæmdasamninga, sem bæjaryfirvöld gerðu fyrir réttum áratug við Nýsi vegna skóla- og íþróttamannavirkja í bæjarfélaginu og jafnframt um uppkaup á búnaði í þeim stofnunum.

Umtalsverð hagræðing og sparnaður náist fram með þeirri yfirtöku en tæpir tveir áratugir eru eftir af umræddum leigusamningum. Þá hefur Hafnarfjarðarbær einnig gert kauptilboð í umræddar eignir sem eru nú í höndum skiptaráðaenda og standa yfir viðræður milli aðila um þau kaup.

Í tilkynningunni kemur fram, að rekstrarniðurstaða aðalsjóðs Hafnarfjarðarbæjar eftir fjármagnsliði  hafi verið jákvæð um 6,2 milljarða króna sem skýrist að stærstum hluta af söluhagnaði af sölu hlutabréfa bæjarins í Hitaveitu Suðurnesja. Fjármagnsgjöld eignasjóðs hafi á hinn bóginn verið neikvæð uppá um 8,4 milljarða króna sem skýrist af lækkun á gengi íslensku krónunnar og verðlagsbreytinga.

Heildarafkoma A hluta bæjarsjóðs sé því neikvæð um tæpa 2,1 milljarða króna en áunnar lífeyrisskuldbindingar hækkuðu um 1,1 milljarð króna á milli ára.

Rekstrarniðurtaða B-hluta fyrirtækja bæjarins fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 470 milljónir króna, en fjármagnsliðir voru neikvæðir vegna gengisþróunar og verðlagsbreytinga um rúma 2.5 milljarða króna. Samantekin niðurstaða bæjarsjóðs og B-hluta fyrirtækja bæjarins eftir fjármagnsliði sé því neikvæð um tæpa 4,2 milljarða króna. Veltufé frá rekstri nam 579 milljóna króna.

Fjárfestingar á árinu 2008 námu samtals 5381 milljón króna og námu heildareignir sveitarfélagsins í árslok 39.548 milljónum, höfðu aukist um 11.201 milljónir á milli ára.

Heildarskuldir námu í árslok 36.999 milljónum og hækkuðu um 15.416 milljónir milli ára. Þar af voru um 8885 milljónir vegna gengisbreytinga og verðlagsbreytinga en tekin voru ný langtímalán að fjárhæð 6643 milljónir á árinu 2008.

Heildar peningalegar eignir hækkuðu hins vegar á móti um 8202 milljónir á milli ára og námu í árslok 12.010 milljónum króna. Eigið fé lækkaði um 4215 milljónir og nam 2548 milljónum í árslok. 

Heimasíða Hafnarfjarðar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert