Þorskstofninn við Ísland er í mikilli hættu vegna þess að ein arfgerð hans er veidd mun meira en aðrar. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem stýrt var af Einari Árnasyni, prófessor í þróunarfræði og stofnerfðafræði við Háskóla Íslands, og sagt var frá í fréttum Ríkisútvarpsins.
Þar kom fram að grein eftir Einar, Ubaldo Benitez Hernandez og Kristján Kristinsson á vef Public Library on Science segi frá niðurstöðum viðamikillar rannsóknar á þorskinum.
Haft var eftir Einari, að vísindamennirnir hafi tekið eftir geysilega sterku vali gegn ákveðnum arfgerðum í þorskinum. Arfgerðirnar séu í meginatriðum þrjár: AA, BB og AB. Sú fyrsta, AA, heldur sig á grunnsævi, BB heldur sig mun dýpra, en AB er þar á milli.
Einar segir, að veiðar séu að mestu stundaðar á búsvæði AA arfgerðarinnar, sem þýði að val veiðanna úr stofninum sé að meirihluta úr þessari arfgerð og við blasi að AA arfgerðin hverfi úr stofninum á mjög skömmum tíma. 7 kynslóðir séu eftir í mesta lagi. Þeir hafi því áhyggjur af yfirvofandi hruni í stofninum.
Hann segir, að við þessu verði að bregðast með því að draga úr valáhrifum veiðanna, helst með friðun svæða.