Þingmenn Framsóknarflokks hafa lagt fram frumvarp á Alþingi sem gerir ráð fyrir því, að verðtryggð lán geti að hámarki hækkað um 4% á ári. Það þýðir að lánveitendur beri hækkunina, verði verðbólgan meiri.
„Þessu frumvarpi er ætlað að leita leiða til að frelsa íslenskan almenning úr „paradís lánardrottna“ og létta byrðar skuldugra heimila og fyrirtækja á meðan leiðir út úr skuldafeninu er mörkuð," segir í greinargerð með frumvarpinu.
Þar segir einnig, að samningsstaða skuldara og lánardrottna sé ekki jöfn og oft sé lítið frelsi til samninga. Rök á móti verðtryggingu séu einna helst þau, að áhættu vegna veðskulda og lánasamninga sé komið á skuldara.
Lagt er til í frumvarpinu að við bætist bráðabirgðaákvæði sem feli í sér að skipuð verði nefnd til að leita frekari leiða til að afnema sem fyrst verðtryggingu varanlega. Þá er einnig lagt til, að ríkinu verði bannað að gefa út verðtryggð skuldabréf nema í undantekningartilfellum.