VG vill ná sínu fram

Steingrímur J. Sigfússon formaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon formaður VG. mbl.is/Ómar

Söguleg þingsályktunartillaga ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna um aðildarumsókn að Evrópusambandinu (ESB), sem Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra mælir fyrir, er mikið hitamál á Alþingi eins og gefur að skilja. Tillagan, sem jafnframt er sú fyrsta sem ríkisstjórn Íslands hefur flutt um aðildarumsókn að ESB, er ekki síst umdeild fyrir þær sakir að fyrir liggur að Vinstri græn eru andvíg aðild að ESB samkvæmt stefnu flokksins.

Ræður þingmanna á Alþingi í gær tóku mið af þessum pólitísku átakalínum og mátti Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður Vinstri grænna, fara ítrekað upp í ræðustól til þess að svara því hverju það sætti að ríkisstjórn sem Vinstri græn ættu aðild að, væri að beita sér fyrir þessu máli. Steingrímur, sem neitaði að gefa upp hvort hann ætlaði að greiða atkvæði með eða á móti tillögunni, sagði hana vera málamiðlun í ólíkri stefnu flokkanna. Mikilvægast væri fyrir hvern og einn þingmann að kjósa eftir sinni sannfæringu og treysta þjóðinni til þess að eiga lokaorðið. Það væri þingsins að tryggja faglega meðferð málsins.

Steingrímur sagði ennfremur að ekki væri ólíklegt að tillagan tæki breytingum og ekki síst þess vegna vildi hann bíða með að mynda sér skoðun á málinu.

Verður Samfylkingin undir?

Sjálfstæðis- og framsóknarmenn freista þess að fá Vinstri græn til þess að styðja frekar tillögu þeirra en ríkisstjórnarinnar. Það mátti heyra á ræðum þingmanna flokkanna í gær. Stjórnarþingmenn tóku hins vegar ekki undir þetta, nema að litlu leyti, og sögðu sumir þeirra og hún væri „óþarft milliskref“. Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingarinnar, var einn þeirra og sagði sjálfstæðis- og framsóknarmenn vera að tefja málið með málalengingum.

Sameiginleg tillaga sjálfstæðis- og framsóknarmanna, sem greint var frá í Morgunblaðinu í gær, hefur þó ekki verið formlega rædd enn.

Í samtölum við Morgunblaðið í gær sögðu þingmenn að áherslur Steingríms J. og Árna Þórs í ræðum um tillöguna bentu til þess að Vinsti græn ætluðu sér ekki að láta tillöguna sem Össur mælir fyrir fara óbreytta í gegn. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur það verið rætt innan þingflokks Vinstri grænna. Utanríkismálanefnd, undir stjórn Árna Þórs, myndi sjá til þess að tillögunni yrði breytt á þann veg að Vinstri græn gætu betur sætt sig við hana. Árni Þór sagði meðal annars að hann „þyrfti ekkert að spyrja Össur“ að því hvernig umfjöllun tillagan fengi í utanríkismálanefnd.

Fari svo að tillögunni verði breytt á þann veg að hún þrengi samningsstöðu Íslands gagnvart ESB, sérstaklega í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum, þá er ekki ólíklegt að samfylkingarfólk myndi segja að það hefði orðið undir. Ef marka má áhersluna sem þingmenn flokksins hafa lagt á ESB-málið, þá munu þeir vafalítið reyna að forðast alla töf á málinu. Ræður þeirra í þinginu voru flestar á þann veg, að flýta þyrfti málinu sem allra mest þar sem umsókn um aðild að ESB væri hluti af lausn á efnhagslegum bráðavanda sem bankahrunið í október hefði skapað.

Tillögur sameinaðar

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa sumir hverjir talað fyrir því að tillögu þeirra og framsóknarmanna mætti slá saman við tillögu ríkisstjórnarinnar. Sama má segja um fleiri og sagðist Steingrímur J. meðal annars ekki sjá neitt því til fyrirstöðu að tillögurnar yrðu settar saman. Þannig mætti ná víðtækari sátt um málið innan og utan þings.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert