Harður jarðskjálfti varð klukkan 13:35 og fannst vel á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt vef Veðurstofu Íslands var stærsti skjálftinn 4,5 stig á Richter og voru upptök hans í Fagradalsfjalli um 5 km austan við jarðskjálfta, sem varð í gærkvöldi og mældist 4,7 stig.
Á vef Veðurstofu Íslands kemur fram að skjálfti, sem mældist 3,1 stig á Richter hafi orðið klukkan 13:34 en rúmri mínútu síðar hafi orðið skjálfti sem var 4,5 stig. Í kjölfarið hafa fylgt minni skjálftar.
Upptök skjálftanna voru við Krýsuvík, Straumsvík og Grindavík. Á höfuðborgarsvæðinu kom stærsti skjálftinn fram eins og eitt stutt högg.
Alls hafa 438 skjálftar mælst á Reykjanesi síðustu tvo sólarhringana. Þar af eru 9 skjálftar 3 stig eða meira en flestir, eða 287, eru á bilinu 1-2 stig.