„Atvinnurekendur eru ekki að borga út alla þessa hækkun fyrsta júlí. Það liggur bara fyrir. Við ráðum ekki við það,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Í gær var heldur þungt hljóð í honum og Gylfa Arnbjörnssyni, forseta Alþýðusambands Íslands, þar sem ekki tókst að sættast á hvenær umsamdar launahækkanir ættu að taka gildi.
SA hafa lagt til að helmingi umsaminna launahækkana 1. júlí næstkomandi og 3,5% hækkun á launaþróunartryggingu verði frestað til 1. nóvember. Sömuleiðis að áformuðum launahækkunum 1. janúar 2010 verði frestað til 1. september þess árs.
Gylfi segir viðræðurnar hafa hangið á bláþræði vegna þessa máls. „Í ljósi þessarar niðurstöðu munu aðilar í samninganefnd ASÍ funda með sínu baklandi á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag. Það verður að fara í umræðu um hvað menn vilja gera. Það má vera ljóst að ef við stöndum fast á því að þetta komi til framkvæmda í júlí muni SA ekki óska eftir því að framlengja samninginn.“
Fari svo að hvorug hreyfingin gefi eftir endar þetta með því að vinnuveitendur skrifa Alþýðusambandinu bréf og framlengja ekki gildandi kjarasamninga, sem undirritaðir voru 17. febrúar 2008. Þeir þóttu þá mjög sérstakir og þótti vel hafa tekist til.
Fari svo verða þeir lausir frá 1. júlí og ákveða þarf upp á nýtt hvort verkalýðsfélög veiti ASÍ umboð til að semja. Það er tvísýnt að sögn Gylfa.