Ökumaður jeppa sem lenti í árekstri við lítinn sendibíl á Grindavíkurvegi á miðvikudag hafði verið sviptur ökuréttindum og hefði því með réttu alls ekki átt að vera undir stýri. Þá leikur grunur á að hann hafi verið ölvaður, að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum.
Í árekstrinum lést 48 ára karlmaður sem var ökumaður sendibílsins og lætur hann eftir sig eiginkonu og þrjú börn.
Tildrög slyssins eru í rannsókn og Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn, sagði að á þessu stigi málsins væri ekki hægt að greina nánar frá þeim. Vitni voru að slysinu.
Gunnar sagði að ávallt þegar svo alvarlegt slys yrði væri kannað hvort viðkomandi hefði verið undir áhrifum. Búast mætti við að niðurstöður rannsóknar lægju fyrir innan tveggja vikna.