Biskup Íslands hefur ákveðið að framlengja leyfi séra Gunnars Björnssonar, sóknarprests á Selfossi, frá störfum á meðan mál hans er til meðferðar hjá úrskurðarnefnd Þjóðkirkjunnar. Að svo stöddu er leyfi hans framlengt til 1. ágúst næstkomandi og mun hann því ekki snúa aftur til starfa framan af sumri.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Biskupsstofu, sem send var út í dag.
Úrskurðarnefndin fór fram á það við biskup, að Gunnar snúi ekki til starfa á meðan nefndin vinnur að málinu og hafði Gunnar andmælarétt þar til í gær.
Gunnar Björnsson var í lok mars síðastliðnum sýknaður í Hæstarétti af ákæru um kynferðislega áreitni og hefur Morgunblaðið greint frá því að sóknarbörnin skiptist mjög í tvær fylkingar í afstöðu sinni til Gunnars. Foreldrar óskuðu eftir því að Gunnar sæi ekki um fermingar í ár og Æskulýðssamband Þjóðkirkjunnar hefur til að mynda, með hliðsjón af starfsreglum sambandsins og því sem fram hefur komið í dómsgögnum í máli séra Gunnars Björnssonar, lýst þeirri skoðunað hann eigi ekki að taka til starfa að nýju við Selfosskirkju, eins og greint var frá í Morgunblaðinu 31. mars.