MIT háskólinn í Bandaríkjunum hefur valið MBA í Háskólanum í Reykjavík úr hópi 20 umsækjenda til að halda eina stærstu frumkvöðlaráðstefnu heims í mars á næsta ári. Ráðstefnan heitir MIT Global Start-up Workshop og dregur til sín um 500 frumkvöðla, fjárfesta, stjórnmálamenn, háskólakennara og nemendur alls staðar að úr heiminum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Háskólanum í Reykjavík.
Aðalsteinn Leifsson, forstöðumaður MBA námsins, tilkynnti þetta á útskrift MBA-nema frá Háskólanum í Reykjavík í dag. Hann segir þetta afskaplega mikinn heiður fyrir HR og að margir virtir skólar hefðu verið á meðal umsækjenda.
Einnig tilkynnti Aðalsteinn að dr. Daniel Isenberg, prófessor í nýsköpun frá Harvard háskóla, hefði verið ráðinn til skólans.