Eftir Þorbjörn Þórðarson
Fyrir liggur tillaga að lausn á Icesave-deilunni við Hollendinga og Breta sem felst í því að skilanefnd Landsbankans gefur út skuldabréf tryggt með veði í öllum eignum bankans í Bretlandi vegna reikninganna og afgangurinn lendir síðan á ríkissjóði, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.
Afborgunum af skuldabréfinu yrði frestað í nokkur ár á meðan jafnvægi kæmist á markaði og verðmyndun fyrir eignir yrði hagstæð. Á sama tíma myndu heilbrigð lánasöfn bankans safna tekjum. Í þessu fælist að ríkið bæri í reynd ekki ábyrgð á afborgunum af skuldabréfinu, því útgefandi þess væri skilanefnd bankans.
Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, er sannfærður um að eignir bankans í Bretlandi, sem eru aðallega útlán, dugi til að standa undir skuldbindingum.
„Rýrnun á lánasafni við fall bankans varð aðallega hér á landi, ekki erlendis. Eignasafnið sem var til staðar til að standa á móti innlánum var það mikið að ég hef alltaf verið sannfærður um að það myndi duga til að standa undir skuldbindingum sem tengjast Icesave,{ldquo} segir Sigurjón við sunnudagsblað Morgunblaðsins.
„Það skiptir hins vegar öllu máli að rétt sé staðið að meðhöndlun eignanna og að ekki sé verið að selja þær á brunaútsölu,{ldquo} segir hann.