Þingmenn fá ekkert að vita

Guðlaugur Þór Þórðarson á þingi.
Guðlaugur Þór Þórðarson á þingi. Ómar Óskarsson

„Þetta er orðið algjörlega fráleitt ástand hvað upplýsingagjöfin til viðskiptanefndar er lítil,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem á sæti í viðskiptanefnd Alþingis.  Hann segir að kallað hafi verið eftir því í vikunni hvers vegna frumvarp um lög um fjármálafyrirtæki ætti að afgreiða með þeim flýti sem gert var. Frumvarpið var samþykkt í gærkvöldi. Á frumvarpið að heimila útgreiðslu innstæðna og launa starfsfólks á uppsagnarfresti, þó svo að ekki sé búið að innkalla allar kröfur í þrotabú gömlu bankanna.

„Það fengust ekki svör, eða misvísandi svör, við því af hverju það var gert. Svo kemur í ljós í gegnum fjölmiðla að skýrar hótanir hafi legið fyrir frá þýskum yfirvöldum. Maður myndi þá ætla að það væri ein ástæðan og kannski aðalástæðan, fyrir því að menn voru að flýta sér jafnmikið og raun bar vitni,“ segir Guðlaugur.

Þarna vísar Guðlaugur Þór í frétt Stöðvar 2 frá því í gær, um að þýska fjármálaráðuneytið hafi sent skilanefnd Kaupþings bréf og knúið á um að innistæður 30.000 þýskra sparifjáreigenda í Kaupþing Edge yrðu greiddar út hið fyrsta. Annars sæju þýsk stjórnvöld til þess að afleiðingarnar yrðu slæmar fyrir Íslendinga, í viðræðum við ESB og í samningum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

„Einhvern veginn er tilfinning mín sú að það vanti enn eitthvað af púslum í þessa mynd. Það vantar algjörlega heildarmyndina og það hlýtur að vera ábyrgðarhluti hjá meirihlutanum í þinginu að afgreiða eins stór mál og þetta, án þess að þingmenn hafi vitneskju um svona hluti. Ekki nema að það séu einhverjir leynifundir með þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna þar sem þeir eru upplýstir um eitthvað sem aðrir þingmenn ekki fá að vita. En það er mér ekki kunnugt um,“ bætir Guðlaugur við.

Hann segir að þingmönnum hafi verið tjáð að lögin yrðu að komast í gegn í vikulokin vegna hagsmuna þessara þýsku innistæðueigenda. Þegar gengið hafi verið á Gylfa Magnússon viðskiptaráðherra hafi hann hins vegar gengist við því að ekki lægi svo mjög á málinu af þeirri ástæðu. Bréf var sent til Þýskalands á mánudaginn til að óska eftir upplýsingum um reikninga innistæðueigendanna, til að leggja inn á, en viðbúið var að það tæki daga eða vikur að fá þær upplýsingar og því nægur tími til að ræða málið á þingi.

Þá hafi því verið borið við að það lægi á lagabreytingunni svo hægt væri að greiða bankastarfsmönnum á uppsagnarfresti laun. Svo hafi komið fram umsagnir sem sögðu óvíst að frumvarpið dygði óbreytt til að heimila það. Sú útskýring hafi því einnig fallið um sig sjálfa.

„Ástæðan fyrir því að farið er af stað með þetta frumvarp núna er sú að menn vönduðu sig ekki nægilega vel áður,“ segir Guðlaugur Þór og vísar í fyrri breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki í apríl síðastliðnum. „Það var eitt og sér næg ástæða til að taka núna þann tíma sem menn gátu fengið, til að vanda meðferð málsins.“

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra er af þingmönnum stjórnarandstöðunnar sagður hafa lítinn …
Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra er af þingmönnum stjórnarandstöðunnar sagður hafa lítinn áhuga á því að upplýsa viðskiptanefnd um gang mála. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka