Fréttaskýring: Umhverfisgjöldum ætlað að tryggja uppbyggingu

Strokkur að gjósa. Gullni hringurinn hefur verið vinsæll hjá ferðamönnum.
Strokkur að gjósa. Gullni hringurinn hefur verið vinsæll hjá ferðamönnum. mbl.is/RAX

Þetta er búið að vera í umræðunni í nokkur ár og mjög skiljanlegt að ríkisstjórnin horfi til þess hvort þetta sé vænlegt til árangurs nú þegar lítið er í kassanum til að tryggja ákveðna uppbyggingu,“ segir Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri, um markmið ríkisstjórnarinnar að kanna grundvöll þess að leggja á umhverfisgjöld tengd ferðaþjónustu sem renni til uppbyggingar þjóðgarða og annarra fjölsóttra og friðlýstra áningarstaða ferðamanna og til eflingar ferðaþjónustu.

Ólöf bendir á að í lögum um bæði náttúruvernd sem og Vatnajökulsþjóðgarð sé að finna heimild fyrir gjaldtöku eða aðgangseyri rekstraraðila að friðlýstum svæðum, sem renni þá beint til uppbyggingar á viðkomandi svæðum.

Að sögn Katrínar Júlíusdóttur, iðnaðar- og ferðamálaráðherra, er vinnan við útfærslu umhverfisgjaldanna ekki enn hafin, en ljóst að málið er komið formlega á dagskrá. Aðspurð segir hún sjálfgefið að málið verði unnið í fullri sátt við alla þá sem hagsmuna eiga að gæta í málinu.

Helst horft til þriggja leiða

Að sögn Helgu Harðardóttur, skrifstofustjóra ferðamála í iðnaðarráðuneytinu, hafa menn fyrst og fremst horft til þriggja leiða. Þær eru í fyrsta lagi brottfarargjaldið, í öðru lagi gjald sem innheimt væri af öllum atvinnurekendum á Íslandi og í þriðja lagi að lagt væri almannagæðagjald á tilteknar atvinnugreinar sem starfa í ferðaþjónustu. Helga ítrekar að engin ákvörðun hafi enn verið tekin um hvaða leið verði fyrir valinu enda ljóst að slíkt þurfi að útfæra í samvinnu við hagsmunasamtök og fleiri. Í dag setur ríkið um 75 milljónir á ári í viðhald og úrbætur á ferðamannastöðum út um allt land, en Helga áætlar að um 400 milljónir þyrfti til þess að sinna þessari uppbyggingu sem best.

„Við höfum ekki mótað okkur endanlega stefnu í þessu máli. Okkur er ljóst að það er gríðarlega mikil vinna framundan við að byggja upp og halda við ferðamannastöðum og við erum tilbúin til viðræðna um það,“ segir Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustu. Segir hún kostinn við gjaldheimtu þá að inn komi fé til viðhalds á ferðamannastöðum, en gallarnir við hinar mismunandi leiðir séu mismiklir. Þannig leggist samtökin alfarið gegn gistináttagjaldinu og hafi efasemdir um hvort atvinnulífið ráði við meiri skattheimtu en nú þegar sé.

Flestir jákvæðir

Í samantekt Magnúsar Oddssonar, fyrrverandi ferðamálastjóra, fyrir iðnaðarráðuneytið í fyrra var bent á að væri komið á 300 kr. aðgangseyri á fimm til sex mest sóttu ferðamannasvæðin myndi það skila um 300 milljónum króna á ári. Að mati Magnúsar þyrfti, væri þessi leið farin, að tryggja að aðgangseyrir væri nýttur sem pottur til úrbóta og uppbyggingar bæði á gömlum svæðum og líka til þróunar nýrra svæða til frekari dreifingar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert