Veitt eftirför á ofsahraða

Þegar lög­reglu­menn ætluðu að stöðva grun­sam­leg­an öku­mann um klukk­an hálf sex í morg­un sinnti hann ekki stöðvun­ar­merkj­um og ók á ofsa­hraða suður Hafn­ar­fjarðar­veg frá Kópa­vogs­gjá, að sögn lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu. 

Þegar ökumaður­inn kom að Arn­ar­nes­brú ók hann sem leið lá upp á brúna og gegn rauðu ljósi beint áfram og aft­ur inn á Hafn­ar­fjarðar­veg. Áfram hélt hann á ofsa­hraða suður Hafna­fjarðar­veg yfir gatna­mót­in við Víf­ilstaðar­veg og áfram áleiðis til Hafn­ar­fjarðar.

Í Engi­dal beið lög­reglu­bíll við Álfta­nes­veg. Ökumaður­inn sveigði þá yfir á öf­ug­an vega­helm­ing og ók á móti um­ferð Reykja­vík­ur­veg frá Engi­dal inn í Hafn­ar­fjörð. Skapaðist þá veru­leg hætta fyr­ir aðra um­ferð þar sem bíln­um var ekið móti um­ferð að Flat­ar­hrauni ít­rekað gegn rauðu ljósi. Töldu lög­reglu­menn i eft­ir­för­inni að þá hafi hraðinn verið um 140-150 km/​klst en leyfi­leg­ur há­marks­hraði er 50 km.

Ökumaður­inn endaði svo för sína með því að aka þvert yfir hring­torgið við Arn­ar­hraun og skemmd­ist bíll­inn það mikið að hann komst ekki lengra fyr­ir eig­in vélarafli. Tók þá ökumaður­inn á rás á tveim­ur jafn­fljót­um en var hlaup­inn uppi af fót­frá­um lög­reglu­mönn­um og hand­tek­inn. Hann var í ann­ar­legu ástandi og gist­ir nú fanga­geymsl­ur lög­reglu.

Í bíln­um fannst tals­vert af ætluðu þýfi og í ljós kom einnig, að bíln­um hafði verið stolið. Þrír lög­reglu­bíl­ar tóku þátt í eft­ir­för­inni, sem stóð yfir í um fjór­ar mín­út­ur frá því að hún hófst við Kópa­vogs­gjá og þar til henni lauk við Arn­ar­hraun. Öku­hraði bíls­ins, sem lög­regl­an veitti eft­ir­för, er tal­inn hafa ekið 140-160 km á klukku­stund mest alla leiðina.

    mbl.is

    Bloggað um frétt­ina

    Fleira áhugavert

    Innlent »

    Fleira áhugavert